Þegar Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, tekur við sem skrifstofustjóri Alþingis í haust mun hún snúa aftur á sinn fyrsta vinnustað eftir lok lögfræðinámsins.

„Þannig að ég veit að hverju ég geng, en þá var ég að starfa fyrir nefndir Alþingis. Þegar ég var að skrifa umsóknina fór ég einmitt að róta í gömlum kössum til að leita að prófskírteininu mínu og fann þar gamla málmnælu sem á stóð nefndarritari, og þá hugsaði ég með mér, ætli þetta sé tákn að ég eigi kannski séns í þessa stöðu?,“ segir Ragna sem er margreynd úr bæði stjórnkerfinu og atvinnulífinu, en hún hefur meðal annars starfað sem utanþingsdómsmálaráðherra.

„Ég hef átt alveg frábæran tíma hérna í Landsvirkjun, en þarna sá ég tækifæri til að sameina starfsreynslu mína víða að á einum stað en ég hef á ferlinum tekið  alls kyns krúsídúllur og lykkjur, verið á skrifstofu Alþingis, í ráðuneytunum sem og stjórnunarstörfum í atvinnulífinu. Ég er líka mjög fylgjandi því að fólk fari úr atvinnulífinu í opinbera geirann og öfugt, en svo hef ég líka mikinn áhuga á pólítík. Þó ég hafi skoðanir hef ég líka prófað hlutverk hins hlutlausa embættismanns og hræðist það ekki.“

Ragna er gift Magnúsi Björnssyni tannlækni og saman eiga þau tvær dætur. „Þær eru nú orðnar stórar, 18 og 25 ára, þannig að ég hef fengið meiri frítíma eftir að þær stækkuðu, þó ég hafi nú aldrei verið í vandræðum með að fylla hann. Ég fer í ræktina þrisvar í viku og stunda lyftingar. Einnig fer ég í hugleiðslu og á Qigong æfingar í Fossvoginum. Hugleiðsla er ómissandi ef mikið er að gera til að skerpa á einbeitingunni, hætta að velta sér uppúr öllu og halda sálarró,“ segir Ragna.

„Svo á sumrin finnst mér gaman að fara að veiða, fór einmitt að veiða urriða í Mývatnssveit um síðustu helgi. Ég er mest í fluguveiði á bæði urriða og sjóbirting, en svo þegar ég kemst í lax er það auðvitað alveg frábært. Fjölskyldan er mínir aðalveiðifélagar, en það æxlaðist þannig að eftir að maðurinn minn fékk áhuga og fór með pabba mínum, sem hafði reynt að koma mér inn í þetta en ég alltaf þráast við, ákvað ég að prófa.“

Loks les Ragna mikið sér til skemmtunar og fróðleiks. „Ég er mikill bókaormur og les alls konar bækur, bæði klassískar en svo hef ég mikinn áhuga á teiknimyndasögum, sem eru mikil menningarverðmæti. Ég hef legið í Ástríki, Tinna og Andrés önd en svo er ég líka í alls konar alvarlegri sögum enda verið gerðar vandaðar bækur í þessum skemmtilega miðli um alvarlega hluti eins og seinni heimsstyrjöldina, ástandið í Bosníu og fleira.“