Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hefur beðið japanska fjármálaeftirlitið að semja drög að nýjum reglum sem eiga að miða að því að slakað verði á núverandi löggjöf um aðskilnað á milli banka- og verðabréfastarfsemi þar í landi. Þessi aðgerð japönsku ríkisstjórnarinnar er einn liður í efnahagsstefnu hennar að auka vægi og samkeppnishæfni Tókýóborgar sem fjármálamiðstöðvar í alþjóðlegu fjármálalífi. Sérfræðingar eru flestir á einu máli um að með þessum breytingum muni erlend fjárfesting í japanska fjármálageiranum aukast til muna og einnig auðvelda viðskiptastarfsemi banka þar í landi. Samkvæmt núverandi lögum mega bankar aðeins eiga verðabréfafyrirtæki ef það er sjálfstætt dótturfyrirtæki og takmarkanir gilda auk þess um starfsemi þeirra. Þetta hefur í langan tíma verið talið standa í vegi fyrir þróun japanska fjármálamarkaðins.

Takatoshi Ito, sem er meðlimur í efnahags- og fjármálaráði ríkisstjórnarinnar, var einn af helstu hvatamönnum þess að ráðist yrði í breytingarnar. Að mati Ito er nauðsynlegt að auka sveigjanleika í starfsemi japanskra fjármálastofnana og gera þeim kleift að starfa á bæði banka- og verðabréfasviði. "Við stefnum að því að í kjölfarið verði löggjöfin sveigjanlegri heldur en í Bandaríkjunum", sagði Ito í samtali við Financial Times á þriðjudaginn. Ekki hefur enn verið útlistað nákvæmlega í hverju breytingarnar felast en hins vegar myndi það hafa mikil áhrif á erlendar fjármálastofnanir ef svipaðar reglur giltu um banka- og verðabréfastarfsemi í Japan og gilda í Bandaríkjunum um þessar mundir. Philippe Avril, stjórnandi RBS Securities í Tókýó, sagði að í kjölfar þessara breytinga myndi viðskiptamódel þess taka grundvallarbreytingum: "Þær myndu hvetja okkur til frekari útrásar í Japan."

Mörg erlend fjármálafyrirtæki eru einnig farin að búa sig undir að bæta stöðu sína á japönskum fjármálamarkaði til þess að vera betur í stakk búin til að grípa þau tækifæri sem munu skapast í kjölfar fyrirhugaðrar einkavæðingar póstþjónustunnar. Í síðasta mánuði tilkynnti bandaríski fjárfestingarbankinn Citigroup að hann væri tilbúinn til að greiða 13,35 milljarða Bandaríkjadala til að yfirtaka japanska fjármálafyrirtækið Nikko Cordial. Ef sú yfirtaka gengur eftir - sem flestir búast við - mun staða Citigroup í sölu á fjármálaþjónustu í þessu næst stærsta hagkerfi heimsins styrkjast verulega.