Líkamsræktarkeðjan Virgin Active tapaði 584 milljónum dala á árinu 2020 eða um 75 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Virgin Active fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í fyrra til að bæta fjárhagslega stöðu félagsins og vernda störf, en líkamsræktarkeðjan var stofnuð árið 1997. 40 stöðum var lokað í Bretlandi í fimm mánuði sem leiddi til þess að tekjur drógust saman um 60% og meðlimum um 30%.

Keðjan rekur 238 líkamræktarstöðvar víðsvegar um Evrópu, Asíu og Suður-Afríku, en meðlimum keðjunnar í heiminum fækkaði um 20% á árinu 2020, úr 1,16 milljónum í 931 þúsund. Jafnframt drógust tekjur keðjunnar saman um 51% niður í tæpa 300 milljón dali. Tap félagsins fór úr 27 milljónum dala upp í 584 milljónir dala, eða um 75 milljarða króna.

Jo Hartley, fjármálastjóri Virgin Active, segir að það muni taka tíma að byggja aftur upp meðlimafjöldann hjá líkamsræktarkeðjunni.