Starfsemi fyrirtækja í líkamsræktarstarfsemi, hjá World Class og Baðhúsinu í Brautarholti, hefur að undanförnu haldist óbreytt þrátt fyrir að félögin sem áður áttu fyrirtækin hafi lent í rekstrarvanda og farið í þrot.

Þannig var Iceland spa & fitness, sem áður rak Baðhúsið í Brautarholti, lýst gjaldþrota 24. mars síðastliðinn. Lýstar kröfur í búið voru 216 milljónir króna og voru forgangskröfur þar af 13,8 milljónir króna en þær voru að öllu leyti vangreidd laun. Ekkert fékkst upp í kröfurnar, að því er fram kemur í lögbirtingablaðinu.

Linda Pétursdóttir, fyrrverandi Miss World, rekur Baðhúsið nú undir nafni félagsins Baðhús Lindu ehf. Áður var reksturinn undir nafni Iceland spa & fitness, sem síðan var undir félaginu LP ehf.

Ástráður Haraldsson hrl. sem var skiptastjóri þrotabús Iceland spa & fitness segir að nýtt félag hafi yfirtekið skuldbindingar, sem aðallega fólust í samningum. Andvirði þessara skuldbindinga var jafn mikið eða meira en annars hefði verið litið á sem eign þrotabúsins, að sögn Ástráðs. Ekki var þó hægt að fá nákvæmar upplýsingar um hversu miklar skuldbindingar þetta voru.

Þrek ehf. í slitameðferð

Innköllun var birt í Lögbirtingarblaðinu 16. mars sl. þar sem skorað var á alla þá sem telja sig eiga eitthvað inni hjá Þreki ehf., sem áður var móðurfélag World Class, að lýsa kröfum í bú Þreks.

Sigurbjörn Þorbergsson hrl. er skiptastjóri þrotabúsins en skiptafundur er boðaður 3. júní í sumar. Starfsemi World Class hefur þó haldist óbreytt þrátt fyrir þetta. Starfsemi hefur verið færð inn í félag sem áður var til, Laugar ehf., og halda Björn Leifsson og kona hans, Hafdís Jónsdóttir, þar um stjórnartaumana.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður þeirra, segir félagið hafa yfirtekið skuldbindingar frá Þreki og haldið þannig rekstrinum áfram. Þetta hafi verið gert í samráði við Landsbankann.

Björn í ábyrgðum fyrir 250 til 300 milljónir

Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu situr Björn uppi með miklar persónulegar skuldir eftir misheppnaða útrás til Danmerkur, í samvinnu við Straum fjárfestingarbanka.

Björn sagðist í samtali við Viðskiptablaðið 29. október í fyrra að hann væri á leið í gjaldþrot vegna krafna sem rekja mætti til verkefna með Straumi. Sigurður segir ekki ljóst enn hvernig tekið verði á þessum málum.

„Straumur hefur ekki getað staðið við eitt eða neitt í þessu verkefni frá því það fór af stað. Straumur keypti kröfu af Arion banka, sem rekja má til hlutafjáraukningar í þessu danska ævintýri,“ segir Sigurður.

Björn er í ábyrgð ásamt viðskiptafélaga sínum, Gunnari Ágústi Péturssyni, fyrir um 250 til 300 milljóna króna skuld, miðað við núverandi gengi, sem Straumur heldur nú á, eftir að hafa keypt kröfuna af Arion banka. Hún hefur enn ekki verið innheimt, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.