Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) var í upphafi viku dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Glitni HoldCo rétt tæplega tvo milljarða króna. Áþekkt mál Glitnis gegn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur velkst um í dómskerfinu í hátt í áratug en falli dómur í því á sama veg mun OR þurfa að reiða fram á annan milljarð króna.

Glitnir stefndi ÚR til efnda á 31 afleiðusamningi, aðilar höfðu átt í slíkum viðskiptum frá 2003, sem var í gildi á milli aðila þegar Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir Glitni í upphafi október 2008. Viðskiptablaðið fjallaði um dóminn í vikunni.

Sjá einnig: ÚR greiði Glitni tvo milljarða

Frá svipuðum tíma, það er í október 2012, hefur Glitnir HoldCo rekið annað áþekkt mál en það mál er gegn OR. Glitnir og OR áttu einnig í umfangsmiklum afleiðuviðskiptum á árunum 2002-08 og hefur Glitnir farið fram á greiðslu vegna þeirra. Höfuðstóll kröfunnar er 747 milljónir króna auk dráttarvaxta rúman áratug aftur í tímann.

Sá eðlismunur er á málunum að ÚR átti í viðskiptunum til að stýra vaxta- og gengisáhættu félagsins meðan OR var að taka stöðu með krónunni. Þá er nokkur munur á málsástæðum stefndu og eðli málsins samkvæmt framlögð gögn ekki þau sömu. Einhver líkindi virðast þó vera með þeim þar sem dómkvaddir matsmenn í máli OR gáfu vitnisburð fyrir dómi í máli ÚR.

OR tók til varna í málinu og krefst meðal annars sýknu á þeim grunni að bankinn hafi „beitt svikum og blekkingum í starfsemi sinni á árunum 2007 og 2008“ þannig að það varði ógildingu samninganna. Meðal annars hafi bankinn leynt því að hann væri í raun ógjaldfær. Þá dregur fyrirtækið einnig í efa að Glitnir HoldCo sé raunverulegur handhafi kröfunnar sem deilt er um.

Líkt og ÚR óskaði OR eftir því að tveir matsmenn yrðu dómkvaddir til að leggja mat á stöðu Glitnis árin fyrir fall hans. Telur OR að Glitnir hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og að staða bankans við gerð afleiðusamninga þeirra á milli hafi verið mun verri en opinberar upplýsingar gáfu til kynna. Gerð matsins lauk undir lok árs 2018 en vinna þess dróst nokkuð með - al annars sökum þess að erfiðlega gekk að fá gögn og upplýsingar frá Glitni. Deila um afhendingu gagna fór til að mynda í þrígang fyrir Hæstarétt.

Í ársreikningi OR fyrir árið 2018 eru 740 milljónir króna færðar meðal annarra skamm - tímaskulda vegna málsins. Í skýringum ársreikningsins er þess getið að með færslunni felist ekki viðurkenning á skuldinni af hálfu OR. Fjárhæðin geti hækkað eða lækkað þegar samningarnir hafa verið gerðir upp samkvæmt lokum dómsmálsins.

„Vissulega snúast bæði málin um afleiðuviðskipti. Þetta er þó sitthvort málið og ekki sömu gögn sem liggja fyrir dómnum í þeim. OR hefur fulla trú á sínum málstað í dómsmálinu og rekur það á þess rétta vettvangi,“ segir í svari OR við fyrirspurn blaðsins um málið. Í svarinu kom einnig fram að málið hefði verið kostnaðarsamt. Heimildir blaðsins herma að stefnt sé að því að aðalmeðferð í máli OR fari fram áður en sumarfrí héraðsdóms hefst.

Mallað á dráttarvöxtum um árabil

Í báðum tilvikum krefst Glitnir HoldCo dráttarvaxta frá afhendingardegi, sem jafnframt var gjalddagi, samkvæmt samningunum. Í flestum tilvikum voru þeir síðla árs 2008 eða byrjun árs 2009. Í málinu gegn ÚR voru dráttarvextir dæmdir frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá málshöfðun, það er maí 2016, en ekki fallist á dráttarvexti frá gjalddaga eða er málið var höfðað í fyrstu atrennu. Samkvæmt slumpútreikningum blaðsins mun ÚR þurfa að greiða alls 3,1 milljarð króna samkvæmt dómsorði en hefði verið fallist á dráttarvexti frá gjalddaga hefði upphæðin verið tæplega níu milljarðar króna. Verði fallist á umþrætta kröfu Glitnis á OR, og tímamark dráttarvaxta ákveðið hið sama, má áætla að félagið þurfi að greiða yfir 1,6 milljarða króna. Upphæðin yrði síðan að sjálfsögðu hærri ef fallist yrði á dráttarvexti frá gjalddaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .