Tengsl virðast vera á milli ráns á um 81 milljón bandaríkjadala frá Seðlabanka Bangladesh í febrúar síðastliðnum og tölvuárásarinnar á Sony kvikmyndaverið árið 2014 sem bandarísk yfirvöld kenna stjórnvöldum í Norður Kóreu um. Sú árás kom í kjölfar væntanlegrar forsýningar á myndinni The Interview með Seth Rogen og James Franco sem ekki sýndi stjórnvöld í landinu í fögru ljósi.

Stærsti vopnaframleiðandi Evrópu, BAE Systems, sem einnig starfar á sviði tölvuöryggis, segir að rannsókn á bankaráninu sýni að mikil líkindi eru á milli þess og tölvuárásarinnar og séu þær nægilega miklar til að rannsakendur telji þær líklega framkvæmdar af sömu aðilum. Skýrsla um málið kennir aðila með tengsl við þjóðríki um árásina, þó ekki sé nefnt um hvaða ríki sé verið að ræða.

Í frétt Reuters um málið kemur fram að banki í Víetnam hafi einnig orðið fyrir áður óupplýstri árás, þó ekki sé tekið fram hvaða banka er um að ræða né hvort fé hafi tapast.

Tölvuþrjótarnir virðast hafa brotið sér leið í gegnum varnir bankanna, komist yfir notendaupplýsingar og búið til falsaðar peningaflutningaskipanir til að ná fénu út.

Alþjóðlega fjármálanetið SWIFT sem sér um bankaviðskipti um 11 þúsund fjármálastofnana um allan heim segir að öryggiskerfi sitt hafi ekki verið brotið upp. Þó er líklegt að farið verði enn frekar ofan í saumana á öryggiskerfum þess í kjölfarið á þessum fréttum samkvæmt Reuters.

Tölvuöryggissérfræðingar í Bangladesh halda því fram að tölvuþrjótarnir væru ennþá með aðgang inní tölvukerfi seðlabanka landsins og væru að fylgjast með hvernig rannsókn á ráninu miðaði í gegnum það.

Öryggisstjóri BAE, Adrian Nish, segir að fyrirtækið skoði einungis tæknilegar sannanir sem sýni tengsl milli aðgerðanna án þess að leggja mat á það hverjir standi að þeim, en skýrsla fyrirtækisins segir að notaðar hafi verið „sömu sérstöku aðferðirnar“ og í árásunum á Sony, þó fyrirtækið viðurkenni að aðrar ástæður gætu verið fyrir líkindunum. Það væri möguleiki að margir forritarar deili sama kóðanum eða jafnvel að hermt hafi verið eftir hinni aðgerðinni til að villa um fyrir rannsakendum.