Arnar Sigurðsson, eigandi Sante ehf., hefur líkt ÁTVR við sólkonunginn Loðvík 14. í færslu á Facebook en Loðvík 14. hefur einnig verið kallaður hinn mikli einvaldur.

Færslan kemur í kjölfar tilkynningar ÁTVR um tilkynningu Sante ehf., Bjórland ehf. og Brugghús Steðja ehf. til sýslumanns vegna meintra brota á skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt áfengisheildsölu-, áfengisframleiðslu- og áfengisinnflutningsleyfum sem sýslumennirnir hafa gefið út.

Í færslunni segir hann að Loðvík hafi ríkt farsællega í 72 ár en undir lokin hafi hann farið að berjast gegn hagsmunum borgara sinna og skýtur þar með föstum skotum á ÁTVR.

Þá vísar hann einnig í fræg orð Loðvíks um alræði hans „Ríkið, það er ég,“ en ÁTVR er í daglegu tali oft kallað ríkið.