„Skattar eru eignaskerðing eins og eignaupptaka,“ að mati Garðars Valdimarssonar, lögfræðings á skatta- og lögfræðisviði Deloitte. Hann var með erindi á skattadegi Deloitte fyrr á árinu og fór þar m.a. yfir það ólögmæti sem hann taldi felast í auðlegðarskattinum. Garðar er jafnframt lögmaður útgerðarkonunnar Guðrúnar Lárusdóttur, framkvæmdastjóra Stálskipa. Hún hefur stefnt ríkinu og krefst endurgreiðslu á 35 milljóna króna auðlegðarskatti sem hún hefur greitt. Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag á Guðrún 20% hlut í útgerð Stálskipa í Hafnarfirði. Guðrún telur auðlegðarskattinn brjóta í bága við stjórnarskrá.

Í erindi sínu lagði Garðar upp með með vítæka skilgreiningu á eignaupptöku. Í glærum frá erindi hans sagði m.a.:

„Í lagamáli er eignaupptaka leyfileg þegar eignir eru gerðar upptækar sem einskonar refsing fyrir framið brot, sbr. 69. gr. alm. hegningarlaga. Eignaupptaka er þá skattlagning sem fer í bága við almennt viðurkenndar meginreglur um skattlagningu og stjórnarskrá. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Garðar vitnaði til stóreignaskattsmáls 116/1958 þegar Hæstiréttur taldi að 25% eignarskattur, sem mátti greiða á 10 árum og var því í raun 2,5% skattur, teldist ekki það hár að jafnaðist á við eignaupptöku. Þó hafi Hæstiréttur varað við því að væri slíkur skattur ítrekað lagður á eignir manna með stuttu millibili þá gæti það farið í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár.