Formaður Sjómannasambands Hjaltlandseyja líkir veiðum Íslendinga og Færeyinga úr sameiginlegum makrílstofni við sjórán. Hann segir að með nýjum samningi þar sem ríkjunum tveimur yrði úthlutaður 12% kvóti úr sameiginlegum stofnum væri verið að verðlauna ríkjunum tveimur fyrir sjóránin.

Ný lota í samningaviðræðum um veiðar úr sameiginlegum makrílstofni hefjast í dag. „Þótt allir vilji binda enda á þessa deilu og sjá stöðugleika er einfaldlega verið að verðlauna Íslendinga og Færeyinga fyrir sjórán þeirra,“ segir Simon Collins í samtali við The Shetlands Times.

„Þótt þessar þjóðir hafi ekki veitt mikinn makríl í gegnum tíðina hafa þeir skammtað sjálfum sér mikinn makrílkvóta á nýliðnum árum. Þeir hafa hundsað ábyrg fiskveiðistjórnunarkerfi sem var byggt til að tryggja sjálfbærni makrílstofnsins á norðaustur Atlantshafinu,“ segir hann enn fremur.

Hann segir að makrílstofninn sé mjög viðkvæmur og það beri að virða það.