*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 2. maí 2021 11:22

Líkir Robinhood við spilavíti

Warren Buffett líkir nýgræðingum á hlutabréfamarkaði við fjárhættuspilara og gjaldfrjálsa miðlaranum Robinhood við spilavíti.

Ritstjórn
Warren Buffett er sjötti ríkasti maður heims samkvæmt milljarðamæringalista Forbes viðskiptatímaritsins.
epa

Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, líkir þeim milljónum reynslulausra fjárfesta sem hafa flætt inn á hlutabréfamarkaðinn undanfarið ár við fjárhættuspilara. Þá líkir hann gjaldfrjálsum miðlurum á netinu, á borð við Robinhood, við spilavíti, að því er Reuters greinir frá.

Á ársfundi Berkshire Hathaway, félaginu sem hann stýrir, sagði Buffett að Robinhood laði að sér í stórum stíl fólk sem aðeins sé að veðja á skammtímahækkanir á hlutabréfum í fyrirtækjum líkt og Apple.

„Það er ekkert ólöglegt eða siðlaust við þetta, en ég tel að ekki sé hægt að byggja samfélag í kringum fólk sem ber sig svona að," sagði Buffett á fundinum.

Viðskiptafélagi hans til langs tíma, Charlie Munger, tók dýpra í árina. „Það er hræðilegt að þessi þróun sem hefur átt sér stað geti komið niður á fjárfestingum siðlegra og sæmandi borgara," sagði hann og bætti við: „Þetta er svo rangt. Við viljum ekki afla okkur fjár með því að selja hluti sem eru slæmir fyrir almenning."

Buffett sagði að þrátt fyrir að líkurnar á að græða á hlutabréfaviðskiptum og afleiðum séu meiri en að vinna í lottói, myndu nýir fjárfestar hagnast mest á því að fjárfesta til langs tíma í burðugum og traustum fyrirtækjum.