Saksóknarar vestanhafs hafa nú legið yfir skjölum frá olíurisanum ExxonMobil. Samkvæmt fréttasíðunni Oilprice.com benda rannsóknir saksóknaranna til þess að fyrirtækið hafi haldið mikilvægum upplýsingum um breytingar í loflagsmálum leyndum, til þess að vernda hagsmuni sína.

ExxonMobil hefur verið í fararbroddi rannsókna í loftlagsmálum frá árinu 1970 og er því líklegt að fyrirtækið viti meira en það gefur sig út fyrir að vita. Umhverfisverndarsamtök hafa þó lengi vel gagnrýnt fyrirtækið fyrir aðgerðarleysi og sakað það um að styrkja hugveitur og hagsmunasamtök sem afneita loftlagsvísindum.

Einn saksóknaranna sem hefur kafað ofan í mál ExxonMobil, er Eric Schneiderman frá New York. Hann telur það líklegt að stjórnvöld muni í framtíðinni grípa til aukinna aðgerða til þess að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.

Slíkar aðgerðir myndu óneitanlega hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins, þar sem heilu þjóðirnar gætu bannað olíufélögum að framleiða á ákveðnum svæðum. Ef til slíkra aðgerða kæmi, sæti Exxon uppi með umtalsverðar auðlindir, sem það mætti ekki nýta.

Olíulindir sem má ekki nýta, eru í raun verðlausar. Saksóknararnir telja að fyrirtækið geri sér grein fyrir þessu og sé þar með að ofmeta eignir sínar umtalsvert. Ef svo er, gæti verið um stórfelld markaðssvik að ræða.

Fulltrúar ExxonMobil hafna þó öllum ásökunum.