Bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump er ekki í miklum metum á hinni hlið landamæranna og hafa tveir fyrrum forsetar Mexíkó gengið svo langt að líkja honum við Adolf Hitler.

Trump er líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblíkanaflokksins í forsetakosningunum á næsta ári og hefur hann farið mikinn í baráttu sinni gegn innflytjendum frá Mexíkó og víðar.

Felipe Calderon, fyrrum forseti Mexíkó, sagði á samkomu á laugardag að Trump væri rasisti og miklu meira en einungis á móti innflytjendum.

„Þetta er einfaldlega rasismi og hann er að spila með tilfinningar fólks eins og Hitler gerði á sínum tíma,“ sagði Calderon.

Vicente Fox, forveri Calderon, var heldur ekkert að skafa af hlutunum.

„Hann minnir mig á Hitler,“ sagði Fox við Anderson Cooper á CNN á föstudag.