Eins og VB.is greindi frá í gær hefur Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, skipað Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann Vinstri grænna sem sendiherra í utanríkisþjónustunni. Enn hefur utanríkisráðuneytið ekki greint frá hvert nýskipaðir sendiherrar verða sendir en fram kemur í grein á vef Vísis að talið sé líklegast að Geir verði sendiherra Íslands í Washington og Árni í Moskvu.

Ástæða þess að Geir er talinn líklegur til að verða sendur til Washington er sú að hann mun lengi hafa haft áhuga á sendiherrastöðunni þar og að ráðning hans hafi verið í undirbúningi undanfarið ár. Líklegt þykir að Árni verði sendiherra Íslands í Moskvu þar sem hann stundaði nám í slavneskum málvísindum við Moskvuháskóla á árunum 1986-1988 og hefur góða rússneskukunnáttu.

Núverandi sendiherra Íslands í Washington er Guðmundur Árni Stefánsson og núverandi sendiherra Íslands í Moskvu er Albert Jónsson. Bent er á að algengt er að sendiherrar þjóni í um 3-5 ár á hverjum stað. En bæði Albert og Guðmundur Árni voru skipaðir haustið 2011 og munu því hafa gegnt stöðum sínum í rúm 3 ár um áramótin þegar skipanir Geirs og Árna Þórs taka gildi.