Regluverk banka er að taka örum breytingum um þessar mundir en ein af þeim er reglugerð Evrópusambandsins um gjaldþrot og endurskipulagningu banka sem mun leggja nýjar kvaðir á skuldahlið banka. „Þar verður krafa um að hluti fjárskuldbindinga banka sé á því formi að geta hjálpað þeim að endurskipuleggja starfsemina ef þeir lenda í miklum rekstrarvanda.

Venjulega hefur það verið kallað „bail-out“ þegar ríki koma inn og veita bönkum einhverja fyrirgreiðslu, sem var ekki gert hér en var oftast gert úti. Nú er talað um „bail-in“ en því fylgir að krafa er gerð um að einhver hluti af skuldahliðinni sé á því formi að hægt sé að umbreyta þeim í eigið fé eða jafnvel að afskrifa þær alveg án þess að bankinn þurfi að fara í gegnum gjaldþrot. Það eru þá kröfuhafarnir sem taka höggið en ekki ríkin en það mun krefjast þess að bankar gefi út gerninga sem eru víkjandi en í þeim skuldabréfum felast ákvæði um það í láninu að ef eiginfjárhlutfall fer undir eitthvert viðmið þá hættirðu að borga vexti, skuldabréfinu er breytt í eigið fé eða að það þurrkast hreinlega út. Þetta er það sem verður væntanlega útfært á Íslandi á næstu tveimur árum,“ segir Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans