Ólíklegt er að tekist hafi að ná fram hagkvæmri blöndu aðgerða í því frumvarpi um stjórn fiskveiða sem sjávarútvegsnefnd Alþingis fjallar nú um að mati Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands. Í umsögn sem hann vann fyrir ríkisstjórnina segir hann að hafi markmiðið verið að ná inn tekjum af auðlindinni og nota þær í þágu þjóðarinnar hafi verið hægt að beita mun vægari úrræðum og ná betri árangri, bæði fyrir greinina og ríkissjóð.

Hann segir jafnframt að hreinn hagnaður fiskveiðigreinarinnar samkvæmt hefðbundinni aðferð við að að taka tillit til fjármagnskostnaðar hafi verið um 20 milljarðar króna árið 2009 og miðað við tvöföldun veiðigjalds hefði kostnaðarauki greinarinnar vegna þess verið um 3 milljarðar. Miðað við tvöfalt veiðigjald hefði hreinn hagnaður því numið um 17 milljörðum. „Það er vart hægt að tala um að grundvelli undir útgerð sé kippt á brott þótt ekki sé úr að einhverjar útgerðir muni finna vel fyrir þessari hækkun,“ segir í umsögn Þórólfs.

Þórólfur segir að áhrif frumvarpsins á fjárhagsstöðu einstakra útgerða muni fara mjög eftir skuldastöðu þeirra. „Mjög skuldsettar útgerðir munu finna til þess að fjármálafyrirtæki munu meta veðstöðu þeirra miklu lakari eftir samþykkt frumvarpsins en fyrir m.a. vegna takmarkana á líftíma nýtingarheimildanna og vegna ákvæða um að skilyrði fyrir úthlutun nýtingarheimilda sé góð fjárhagsleg staða viðkomandi útgerðar. Þessar útgerðir munu þurfa á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda. Líklegt er að fjármálafyrirtækin muni ganga að veðum sem ekki tengjast útgerð og leysa til sín í slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu. Slík fjárhagsleg endurskipulagning mun því hafa mikil áhrif á efnahag og rekstur viðkomandi útgerðarmanna en mun litlu eða engu breyta fyrir útgerðina í heild. Fjármálafyrirtækin munu hins vegar þurfa að afskrifa skuldir hjá hinu fjárhagslega endurskipulagða fyrirtæki. Það má því segja að veiðigjaldið verði til þess að auðlindarentan renni í auknu mæli til almennings á Íslandi, hvort heldur er í gegnum ríkissjóð eða sveitarsjóði, en í minna mæli til kröfuhafa hinna föllnu fjármálastofnana," segir í umsögn Þórólfs.