*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 12. nóvember 2019 07:00

Líklega svikið á annan tug milljarða

Netsvikarar hafa náð 1,7 milljörðum af Íslendingum síðastliðið ár, en fjölmörg tilfelli eru aldrei tilkynnt.

Júlíus Þór Halldórsson
Ein algengasta leið netsvikara til að komast í pósthólf fórnarlambs er að verða sér úti um lykilorð frá stórum gagnaleka, sem gjarnan er hægt að kaupa á netinu.
epa

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn sagði á málfundi um netsvik nýlega að líkast til væri raunveruleg heildarupphæð sem netsvikarar hafa náð að svíkja út úr Íslendingum síðastliðna tólf mánuði tífalt hærri en sú upphæð sem vitað er af. Netsvik upp á 1.652 milljónir króna hafa verið tilkynnt til lögreglu á sama tímabili, en aðeins um tíundi hluti þess verið endurheimtur.

Síðastliðinn febrúar var stofnuð sérstök netbrotadeild innan lögreglunnar, sem í dag telur tvö og hálft stöðugildi. Bróðurpartur þess sem tekist hefur að svíkja er tilkominn vegna svokallaðra tölvupóstsvika (e. Business Email Compromise) á borð við mál Glófaxa sem sagt var frá um helgina, sem er algengasta tegund netsvika.

Listi fórnarlamba er langur, en nægir að nefna nýleg mál Rúmfatalagersins, Frumherja, Fiskikóngsins og HS Orku, sem öll komust í hámæli og töpuðu frá nokkrum milljónum og upp í tæpan milljarð.

Næstalgengust eru fjárfestasvindl, en þau ganga út á að plata fórnarlambið til að leggja fjármuni í það sem það telur vera fjárfestingu, en ekkert er í raun á bak við. Korta- og íbúðasvindl eru svo hinir tveir meginflokkarnir sem netbrotadeildin flokkar netsvikamál í.

Alls hafa yfir 1,4 milljarðar króna tapast vegna tölvupóstsvika í samtals 28 málum, en næst koma kortasvindl þar sem 87 milljónir hafa tapast í þremur málum, því næst íbúðasvindl þar sem sami fjöldi mála hefur kostað 9,5 milljónir, og loks eru það 10 tilfelli fjárfestasvindla, sem hafa kostað samtals 134 þúsund krónur.

Eins og komið var inn á að ofan ber þess geta að ofangreindar fjárhæðir innihalda einnig svik þar sem tekist hefur að endurheimta fjármunina að hluta eða í heild. Tölfræðin hér á landi er af skornum skammti enn sem komið er, en með tilkomu netbrotadeildarinnar stendur það til bóta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.