Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segist sakna þess að ekkert sé minnst á niðurgreiðslu skulda ríkisins í stjórnarsáttmálanum.

„Þrátt fyrir að þrekvirki hafi unnist í niðurgreiðslu skulda á undanförnum árum þá erum við enn með þriðju hæstu vaxtabyrði allra ríkja innan OECD.," segir hann. „Ég sakna þess líka að ekkert sá fjallað um aðhald eða aukinn einkarekstur, sér í lagi í heilbrigðisþjónustu. Það þarf að nýta betur skattfé landsmanna. Við erum mjög líklega á toppi hagsveiflunnar og allir skattstofnar eru þandir til hins ýtrasta.  Tekjur ársins 2017 eru 10 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir sem segir okkur að hagsveiflan er að skila ríkinu miklu meiru en reiknað var með. Á toppi hagsveiflunnar þarf að sýna ráðdeild og leggja til hliðar fyrir erfiðari tíma og þess sér ekki merki í þessum stjórnarsáttmála."

Í stjórnarsáttmálanum er talað að Þjóðarsjóður verði stofnaður „utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."
Halldór segir að lífið sé ekki svart og hvítt.

„Galdrarnir gerast á gráa svæðinu. Við eigum að halda áfram að greiða niður skuldir en ef það á líka að fara í innviðauppbyggingu með einum eða öðrum hætti þá þarf að skoða það í hverju tilviki fyrir sig. Aðaláherslan á að vera á niðurgreiðslu skulda því við erum enn mjög skuldsett þjóð. Það sem bjargaði okkur í hremmingunum árið 2008 var hversu lítið skuldsettur ríkissjóður var. Skuldastaða ríkissjóðs er ekki jafngóð í dag — við eigum enn talsvert í land."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð