„Við horfum framan í það að það er aukin áhætta í sjóðnum frá því sem var. Líkurnar á því að það þurfi að auka ríkisframlag vegna þess að innheimtuhlutfall hefur versnað verða meiri,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við Fréttablaðið .

Þar vísar Illugi í úttekt sem stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) lét gera árið 2013, en í henni kemur fram að nafnvirði útlána sjóðsins jókst um nær 60% frá 2008 til 2012 úr 117 í 185 milljarða. Afskriftir uxu hins vegar hraðar, eða um 67%. Staðan hafi lítið breyst síðan þá.

Ný heildarlög um LÍN eru á þingmálaskrá Alþingis, en í Fréttablaðinu er greint frá því að litlar líkur séu á að þau komi fram á yfirstandandi þingi. Illugi segir að ekki sé víst að það takist að koma lögunum fram í vor.