Í umsögn sinni um frumvarpsdrög um námslán og námsstyrki segir ráðið þau vera til mikilla bóta þó það hafi ákveðnar athugasemdir og vonast það til að frumvarpið nái fram að ganga.

Fagna beinum styrkveitingum

Segir ráðið að þyngst vegi hagfelldara stuðningsfyrirkomulag og bættar endurheimtur á útlánum sem dragi úr rekstraráhættu Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Fagnar ráðið áformum um beinar styrkgreiðslur sem þeir segja vera gegnsærra heldur en þeir óbeinu styrkir sem felast í niðurgreiddum vaxtakjörum sem nú tíðkast.

Ljúki námi hraðar vegna skilyrða

Telur ráðið jafnframt að það muni auka hvata námsmanna til að ljúka námi hraðar vegna skilyrða um hámarkstímabil og lágmarksframvindu.

Segir ráðið að ekki sé samræmi á milli fjárhæðar láns og endurgreiðslu, sem valdi misræmi í styrkveitingu til námsmanna og röngum hvötum. Það er að mesti stuðningurinn fari í raun til þeirra sem eiga stystan tíma eftir á vinnumarkaði og taki hæstu lánin. Þannig séu nemendur líklegri til að velja arðbærari námsleiðir samkvæmt nýja fyrirkomulaginu.

Fastar endurgreiðslur og hámarksendurgreiðslutími

Telur ráðið jafnframt að endurheimtur námslána muni batna með breytingunum, vegna ákvæða um fastar endurgreiðslur og hámarksendurgreiðslutíma, sem komi í veg fyrir þá óbeinu styrki sem lítill hópur námsmanna hafi notið samkvæmt núverandi kerfi.

Þó telur Viðskiptaráð að útlánaáhætta gagnvart þeim einstaklingum sem sækja í dýra erlenda skóla vera af skornum skammti og því sé ólíklegt að það hafi mikil áhrif á endurheimtur að hafa hámarkslán rýmra en þær 15 milljónir sem kveðið er á um í lögunum.

Bjóða eigi út þjónustu LÍN

Jafnframt hvetur ráðið að lánasjóðurinn eigi að nýta heimild til að fela fjármálafyrirtækjum útborgun, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu sjóðsins á lánum. Benda þeir á að jafnvel mætti breyta lagatextanum þannig að sjóðnum bæri að bjóða út þau verk sem ekki er þörf fyrir að sjóðurinn sinni sjálfur.

Loks telur Viðskiptaráð að það flæki námslánakerfið, dragi úr endurheimtum og auki umsýslukostnað að heimila fólki að fresta allt að helmingi hverrar endurgreiðslu námslána í allt að 60 mánuði vegna kaupa fyrstu íbúðar lántaka.