Þriðjungshlutur Kjalars, félags Ólafs Ólafssonar, í HB Granda er veðsettur Arion banka og eru meiri líkur en minni á því að bankinn leysi hlutinn til sín. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru þegar fyrir hendi áhugasamir kaupendur að hlutnum enda HB Grandi stöndugt fyrirtæki með góðar rekstrarhorfur, ekki síst núna í ljósi veikrar stöðu krónunnar, en tekjur HB Granda eru nær alfarið í erlendri mynt. Ekki er þó líklegt að Arion banki gangi að hlutnum fyrr en leyst hefur verið úr stöðu Kjalars. Þar er helst að nefna ágreining félagsins við skilanefnd Kaupþings vegna gjaldmiðlaskiptasamnings sem félagið gerði við bankann snemma árs 2008. Samkvæmt honum átti bankinn að afhenda Kjalari 653 milljónir evra, jafnvirði um 126 milljarða króna, í október og félagið að afhenda krónur á móti. Í ljósi þess að Kaupþing féll komst samningurinn í uppnám. Forsvarsmenn Kjalars hafa haldið því fram að það hafi verið mögulegt að fá 200 til 300 krónur fyrir hverja evru erlendis og vilja að samningurinn sé gerður upp á grundvelli þessi. Skilanefnd Kaupþings er þessu ósammála og segir að samningurinn skuli gerður upp miðað við það að evran sé virði 170 til 180 króna. Á móti þessu samningum koma síðan skuldir Kjalars en nær útilokað er að félagið geti greitt upp skuldir sínar að fullu, hvernig sem samningurinn verður gerður upp, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þar vegur þungt höggið sem félagið varð fyrir þegar stærsta eign þess, tæplega 10% hlutur í Kaupþingi, varð verðlaus við fall Kaupþings.

Sterk staða Granda Markaðsvirði HB Granda er í dag um 8,8 milljarðar króna. Heildarhlutafé er um 1,7 milljarðar og gengi hlutabréfa í Kauphöllinni var í gær 5,2. Staða Granda í lok árs 2008 var traust samkvæmt ársreikningi. Eigið fé félagsins var um 125 milljónir evra, eða sem nemur 22,5 milljörðum króna.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.