Líklegt er að Burðarás hagnist um einn milljarð íslenskra króna ef norska olíuleitarfyrirtækið Exploraton Resources tekur yfirtökutilboði hollenska ráðgjafafyrirtækisins Fugro NV, segir talsmaður Burðaráss.

Burðarás á um 8,3% hlut í norska félaginu, en tilboð Fugro hljóðar upp á 250 milljónir evra, segir í frétt Reuters.

?Miðað við gengi (Exploration Resources) í dag hefur markaðsverðmæti hlutar Burðaráss aukist um 90 milljónir norskra króna í 172 milljónir króna en mismunurinn nemur um 900 milljónum íslenskra króna. Búist er við frekari hækkunum," segir talsmaður Burðaráss.

Talsmaðurinn segir að Fugro hafi boðið um 20% yfirverð í norska félagið í morgun, eða því sem samsvarar 290 norskar krónur á hlut. ?Markaðurinn býst við öðru yfirtökutilboði og hefur gengi bréfa í félaginu haldið áfram að hækka í dag og (fór í) 310 krónur," segir talsmaður Burðaráss.

Sérfræðingar segja við Reuters-fréttaskrifstofuna að viðskiptin séu góð fyrir báða aðila ? bæði Exploration Resources og Fugro. Þeir segja að virði tilboðsins sé um 2,5 sinnum tekjur norska félagsins.