Eggert Magnússon, formaður Knattspyrnusambands Íslands og stjórnarmaður í Straumi-Burðarási, mun hækka óformlegt kauptilboð sitt í breska knattspyrnuliðið West Ham United, samkvæmt upplýsingum breska dagblaðsins The Times.

Blaðið greinir frá því að Eggert hafi átt fundi í London í gær og mögulegt sé að hann geri nýtt tilboð í félagið á morgun, en stjórnarformaður West Ham er talinn vilja fá um 80 milljónir punda fyrir félagið, eða rúmlega tíu milljarða króna.

Landsbanki Íslands hefur verið orðaður við kauptilboð Eggerts og þykir líklegt að bankinn komi að fjármögnun. The Times bendlar einnig Björgólf Guðmundsson við Eggert, og segir að mögulegt sé að Eggert geti fengið fjárhagslegan stuðning frá Björgólfi.