Mikill viðskiptahalli hefur verið viðvarandi undanfarin misseri og nam hann 26% af landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem sennilega telst met hér á landi, segir greiningardeild Landsbankans.

?Ástæðu þessa mikla viðskiptahalla er ekki að finna í minnkandi útflutningi. Þvert á móti hafa útflutningstekjur þjóðarinnar sjaldan verið meiri. Mikill viðskiptahalli nú skýrist aðallega af miklum og vaxandi innflutningi. Fyrst orsakaði vaxandi einkaneysla viðskiptahallann að mestu en á síðustu mánuðum hefur vöxturinn stöðvast og gengið lítillega til baka og hafa fjárfestingar- og rekstrarvörur skýrt vaxandi viðskiptahalla," segir greiningardeildin.

Henni þykir líklegt að innflutningur neysluvara dragist frekar saman á næstu mánuðum samanborið við árið í fyrra.

?Engu að síður muni vöruskiptahalli þessa árs haldast svipaður milli ára eða jafnvel aukast þar sem innflutningur á fjárfestingar- og rekstrarvörum mun ekki hjaðna fyrr en á næsta ári þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur. Viðsnúningur á vöruskiptahalla verður því ekki fyrr en á næsta ári en við gerum ráð fyrir að hann verði þá í námunda við 10% af landsframleiðslu.

Þegar nýju álverksmiðjurnar verða farnar að skila fullum afköstum seint á næsta ári má gera ráð fyrir að vöruskiptahallinn minnki hratt. Nánari umfjöllun er að finna í nýútkominni skýrslu Greiningardeildar, Efnahagsmál og skuldabréfamarkaður," segir greningardeildin.