Að sögn Friðjóns Einarssonar, talsmanns Kaupthings Lúxemborgar, er þess vænst að viðræðum um áframhaldandi rekstur bankans ljúki í vikulokin.

Fimm aðilar eru enn í viðræðum um yfirtöku bankans en að sögn Friðjóns er mjög líklegt að bankinn verði bútaður niður að endingu og honum skipt upp.

Yfirvöld í Lúxemborg hafa leyft viðræður við nokkra aðila um kaup á bankanum. Friðjón sagði að þeir væru vongóðir um að það muni takast en þetta séu flóknar viðræður.

Rétt er að horfa til þess að ekki er um eiginleg kaup að ræða heldur yfirtöku. Hlutafé bankans er verðlaust og því mun kaupverðið verða 1 króna. Gert er ráð fyrir að nýir eigendur bankans leggi honum til sem svarar 150 milljónir evra til að gera hann starfhæfann á ný.

Að sögn Friðjóns myndi þetta tryggja það að hægt yrði að greiða öllum þeim sem eiga innistæður í bankanum. Hann sagði það enda höfuðmarkmið yfirvalda á Íslandi og í Lúxemborg að tryggja það. „Við teljum að þetta mál sé í góðum farvegi,” sagði Friðjón.