Gengi krónunnar hefur átt undir högg að sækja í núverandi umhverfi lausafjárvanda og þverrandi áhættusækni undanfarnar vikur. Samkvæmt Morgunkorni Glitnis [ GLB ] má  reikna með að þetta ástand muni a.m.k. vera viðvarandi út árið. Í ljósi þess gerir Greining Glitnis ráð fyrir að gengi krónunnar lækki í desember og spáir því að gengisvísitalan standi að meðaltali í 121 þennan síðasta mánuð ársins. Hækkun líkleg þegar kemur fram á nýtt ár Í Morgunkorninu segir að skilyrði á erlendum fjármálamörkuðum muni áfram ráða þróun gengis krónu þegar kemur fram á nýtt ár. Vandasamt er að tímasetja hvenær dregur úr óvissu vegna lausafjárvandans og áhættusækni fjárfesta fer að aukast á ný. Greining Glitnis telur að það eigi sér stað þegar árslokauppgjör stórfyrirtækja verða birt. Meiri upplýsingar munu draga úr óvissunni. Í kjölfarið geti gengi krónunnar hækkað. Greiningin spáir því að dollarinn fari lægst í 59 krónur á vormánuðum og evran í tæpar 87 krónur. Stórir krónubréfagjalddagar á 1. ársfjórðungi, þegar 100 milljarðar króna auk vaxta falla á gjalddaga, munu ekki hafa teljandi áhrif á gengi krónunnar en slíkt er þó ekki hægt að útiloka og ræðst að verulegu leyti af erlendum aðstæðum á komandi mánuðum, segir í Morgunkorni Glitnis.