Líklegt er að lykilstjórnendur og framkvæmdastjórar Actavis endurfjárfesti í félaginu til lengri tíma litið að því er haft er eftir Halldóri Kristmannssyni, talsmanni Actavis í Viðskiptablaðinu í dag. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur nú lokið yfirtöku sinni á samheitalyfjaframleiðandanum og hafa allir stjórnendur selt sína hluti.

Stærsta hlutinn átti Róbert Wessman, forstjóri félagsins, en andvirði hlutar Róberts nam um 12,3 milljörðum króna. Sú staða var skuldbundin og voru leiddar líkur að því að Róbert myndi endurfjárfesta í Actavis eftir að yfirtaka væri gengin í gegn, en ekki hefur fengist staðfest að svo stöddu með hvaða hætti eða hvert umfang þeirrar fjárfestingar verður.

Eignarhald Actavis er í dag í höndum Novators, en í yfirtökutilboðinu var sá fyrirvari settur að nýjum eigendum væri frjálst að færa eignarhald Actavis frá Novator kysu þeir það. Hafa verið leiddar líkur að því að lykilstarfsmenn Actavis verði stórir fjárfestar í nýju félagi, og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti hlutur stjórnendanna numið allt að því fimmtungi í hugsanlegu eignarhaldsfélagi Actavis. Hvert fyrirkomulag eignarhalds á Actavis verður er óráðið að sögn Halldórs Kristmannssonar: "Það er ómögulegt að segja til um hvernig því verður háttað, en þegar fram í sækir þyrfti það ekki að koma á óvart ef lykilstarfsmenn fjárfestu í félaginu."


Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novators, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að umfang eignarhalds lykilstarfsmanna í Actavis væri ófrágengið: "Núna er það Novator sem er eigandi félagsins og ábyrgðaraðili skulda vegna fjármögnunar kaupanna. Það þarf að tryggja áframhaldandi þátttöku lykilstarfsmanna í rekstrinum, en hvernig það verður gert er óvíst."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.