Seðlabankinn mun að líkindum tilkynna um 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta samhliða útgáfu Peningamála eftir lokun markaða í dag. Verðbólga er 4,8% og langt umfram 2,5% verðbólgumarkmið bankans. "Í hagkerfinu ríkir mikil og vaxandi framleiðsluspenna sem endurspeglast í litlu sem engu atvinnuleysi, mikilli verðbólgu og methalla á utanríkisviðskiptum. Útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum virðist hafa aukið áhrifamátt vaxtamunarins við útlönd á gengi krónunnar," segir Greiningardeild Íslandsbaka í Morgunkorni sínu.

Þar er einnig bent á að óvissa um vaxtaákvörðun Seðlabankans er því meiri fyrir vikið og afar áhugavert verður að heyra túlkun Seðlabankans á þessari nýlegu þróun síðar í dag.

Gangi spá okkar eftir fara stýrivextir í 10% og hafa þá hækkað um 4,7 prósentustig frá því bankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt fyrir rúmu ári síðan. Reiknum við með enn frekari vaxtahækkun á næstu mánuðum og að bankinn fari hæst með vexti sína í 11% snemma á næsta ári.