Heildarútgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum nemur nú um 220 milljörðum króna og telja sérfræðingar að hækkun stýrivaxta um 75 punkta í 12,25% muni ýta undir áframhaldandi útgáfu.

Þóra Helgadóttir, sérfræðingur í efnahagsmálum hjá greiningardeild Kaupþings banka, telur það ekki ólíklegt að hækkun stýrivaxta muni stuðla að aukinni útgáfu skuldabréfa erlendra aðila í íslenskum krónum, eða svokölluðum jöklabréfum eða krónubréfum.

European Investment Bank (EIB) og þýski bankinn KfW stækkuðu skuldabréfaútgáfur sínar í krónum um þrjá milljarða króna í síðustu viku. Heildarútgáfa EIB nemur nú 40 milljörðum króna og heildarútgáfa KfW nemur 50,5 milljörðum króna.

Þóra bendir einnig á að stýrivaxtahækkunin og hugsanlegar krónubréfaútgáfur verði til þess að krónan styrkist á ný, en þrátt fyrir hækkunina í gær veiktist krónan um 1,38%.

Sérfræðingar segja einnig að lækkun á hlutabréfamarkaði í gær megi að einhverju leyti rekja til stýrivaxtahækkunarinnar. Úrvalsvísitalan lækkaði í gær um 2,37% í dag í 5.601,71 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands. Landsbanki Íslands leiddi lækkunina og lækkaði gengi hlutabréfa bankans um 3,95%. Gengi bréfa kaupþings banka lækkaði um 3,42%, Glitnir lækkaði um 2,31%, Avion Group lækkaði um 2,22% og FL Group lækkaði um 2,15%.