Líklegt þykir að stjórnvöld í Slóveníu fylgi í kjölfar Grikkja og Kýpverja og fari fljótlega bónleið til Brussel og óski eftir fjárhagslegum stuðningi frá Evrópusambandinu til að koma ríkisfjármálum landsins á kjöl. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir stjórnvöld í Slóveníu hafa unnið að því hörðum höndum að koma sér hjá því að óska eftir lánum frá Evrópusambandinu. Þegar sé búið að leggja fram áætlun um uppstokkun á skuldsettum bönkum landsins, hækka skatta og einkavæða fyrirtæki í eigu hins opinbera.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna funda í Brussel í dag um skuldavanda Kýpur og Grikklands og þykir líklegt að málefni Slóveníu verði sömuleiðis til umræðu. Búist er við að ósk stjórnvalda á Kýpur um þriggja milljarða evra lán verði samþykkt auk þess sem Grikkir fái allt að 7,5 milljarða evra. Lán til Grikkja er það síðasta í risalánapakka sem Evrópusambandið og fleiri, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, samþykktu að veita Grikkjum árið 2010. Lánið hljóðar upp á 240 milljarða evra. Lánið nú verður veitt til að greiða ríkisstarfsmönnum laun, greiða út ellilífeyri og greiða eigendum grískra ríkisskuldabréfa.