Búist er við að lagt verði til á kjördæmisþingum Framsóknar í dag að halda flokksþing fyrir komandi alþingiskosningar. Þrjú kjördæmisþing eru í dag, í Suðurkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Álykti þau öll að halda flokksþing segja lög flokksins að skylda sé að verða við því.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mætti á fundinn í Norðausturkjördæmi, þar sem hann fundaði með samflokksmönnum. Í hádegisfréttum RÚV var greint frá því að hann hefur fundað með samflokksmönnum undanfarna daga.

Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður í kjördæminu, sagði líklegt að tillaga um flokksþing yrði samþykkt. Hann telur þó að Sigmundur Davíð njóti stuðnings innan flokksins.

Einnig er talið líklegt að tillaga um flokksþing verði samþykkt í Suðurkjördæmi, en samkvæmt RÚV eru skiptar skoðanir innan kjördæmisins um ágæti Sigmundar til að leiða flokkinn.

Karl Garðarson, þingmaður í Reykjavík suður, vill að boðað verði til flokksþings. Telur hann nauðsynlegt að flokksforystan endurnýji umboð sitt og vill auk þess að línurnar verði lagðar fyrir komandi kosningar.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að staða Sigmundar Davíðs innan Framsóknarflokksins væri veik, en sem kunnugt er vék hann úr stöðu forsætisráðherra eftir að upp komst um aflandsfélag tengt honum og konu hans í hinum svokölluðu Panama-skjölum.