*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 31. maí 2020 19:02

Líklegt að fundi OPEC verði flýtt

Formennska OPEC er þessa dagana í höndum Alsíringa og höfðu þeir lagt til að næsta fyrirhugaða fundi ríkjanna, sem er á áætlun 9.-10. júní, verði flýtt um viku.

Ritstjórn
epa

Ekki er búist við því að Rússar verði andvígir því að næsta fundi OPEC ríkjanna verði flýtt. Þetta herma heimildir Reuters

Formennska OPEC er þessa dagana í höndum Alsíringa og höfðu þeir lagt til að næsta fyrirhugaða fundi ríkjanna, sem er á áætlun 9.-10. júní, verði flýtt um viku. Talið var að Rússar myndu vera á móti því að fundinum yrði flýtt en svo virðist ekki vera. 

Á dagskrá fundarins er að ákveða hve mikið eigi að framleiða af olíu út árið en eftirspurn eftir henni hrapaði í kjölfar þess að hefðbundinn gangur samfélaga heimsins stöðvaðist vegna veirufaraldursins. 

Í apríl var ákveðið að draga úr framleiðslu um 10% til að sporna við frekari verðlækkunum á olíu. Tunnan selst nú á um 35 dollara en hafði áður fallið niður fyrir 20 dollara markið og ekki verið ódýrari í tvo áratugi. Verðið er samt enn aðeins helmingurinn af því sem það var í upphafi árs. 

Heimildir Reuters herma að Sádar hafi hug á því að draga enn frekar úr framleiðslu en það hefur mætt andstöðu hjá Rússum. Þá hafa ekki öll ríki staðið við sinn hlut samkvæmt samkomulaginu en í þeim hópi eru Nígería og Írak.