Ekki er búist við því að Rússar verði andvígir því að næsta fundi OPEC ríkjanna verði flýtt. Þetta herma heimildir Reuters .

Formennska OPEC er þessa dagana í höndum Alsíringa og höfðu þeir lagt til að næsta fyrirhugaða fundi ríkjanna, sem er á áætlun 9.-10. júní, verði flýtt um viku. Talið var að Rússar myndu vera á móti því að fundinum yrði flýtt en svo virðist ekki vera.

Á dagskrá fundarins er að ákveða hve mikið eigi að framleiða af olíu út árið en eftirspurn eftir henni hrapaði í kjölfar þess að hefðbundinn gangur samfélaga heimsins stöðvaðist vegna veirufaraldursins.

Í apríl var ákveðið að draga úr framleiðslu um 10% til að sporna við frekari verðlækkunum á olíu. Tunnan selst nú á um 35 dollara en hafði áður fallið niður fyrir 20 dollara markið og ekki verið ódýrari í tvo áratugi. Verðið er samt enn aðeins helmingurinn af því sem það var í upphafi árs.

Heimildir Reuters herma að Sádar hafi hug á því að draga enn frekar úr framleiðslu en það hefur mætt andstöðu hjá Rússum. Þá hafa ekki öll ríki staðið við sinn hlut samkvæmt samkomulaginu en í þeim hópi eru Nígería og Írak.