Ekki er útilokað að fleiri aðilar vilji koma að uppbyggingu kísilverksmiðju í Helguvík eftir að raforkusamningu Íslenska kísilféalgsins við Landsvirkjun rann úr gildi fyrir skömmu sökum vanefnda. Þetta kom fram í máli Oddnýjar G. Harðardóttur, starfandi iðnaðarráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún sagði Helguvík ákjósanlegan kost, sveitarfélagið hafi skipulagt svæðið og geti verið eftirsóknarvert að halda áfram með áform um byggingu kísilvers þar.

Það var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem spurði ráðherra um örlög rammaáætlunar. Mikilvægt sé fyrir atvinnulífið að ætlunin fari að koma fram svo sveitarfélög geti farið að undirbúa þau svæði sem eigi að fara í nýtingu.

Bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals, sem á 20% hlut í Íslenska kísilfélaginu, er talið ætla sér frekar að beina kröftum sínum að þrotabúi kísilverksmiðju í Kanada í stað þess að reisa verksmiðju hér.

Oddný sagðist kunnugt um að fleiri vilji koma inn í verkefnið í Helguvík enda sé búið að undirbúa þar jarðveginn.

„Við getum leitt að því líkum að þar fari verkefnið af stað,“ sagði hún.