„Þetta er mikið áfall fyrir alla en þó sérstaklega þá sem missa fasta yfirvinnu,“ segir Stefán Benjamín Ólafsson, formaður Starfsmannafélags Reykjanesbæjar, í samtali við Fréttablaðið. Hann telur líklegt að einhverjir starfsmenn bæjarins endurskoði stöðu sína í kjölfar fregna af uppsögnum á fastri yfirvinnu og akstursstyrkjum, en tillögur þess efnis voru samþykktar af bæjarráði fyrir helgi.

„Þetta hefur legið lengi fyrir og búið er að greina afleiðingarnar í bak og fyrir. Það er til að mynda langt síðan yfirmenn voru upplýstir um þetta,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við Fréttablaðið. Aðgerðin sé aðeins kubbur í stærra púsluspili.