Nefnd innan Seðlabanka Bandaríkjanna kom saman í gær til að ræða stýrivexti landsins og ákvörðuun Standard &Poor's um að lækka lánshæfi ríkisins. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, hefur tilkynnt að líklegt sé að stýrivöxtum verði haldið nálægt 0%, eða á bilinu 0-0,25%, fram á mitt ár 2013. Nefndin var ekki einróma með þá ákvörðun og kusu þrír nefndarmenn af tíu á móti þessari hugmynd seðlabankastjóra.

Eignamarkaðir brugðust við orðum seðlabankastjóra Bandaríkjanna um að halda stýrivöxtum svo lágum fram á mitt ár 2013 með hækkunum. Evrópskir og asískir markaðir opnuðu grænir í morgun, ásamt því að olían hækkkaði eftir að hafa náð sínu lægsta gildi í tíu mánuði. DAX vísitalan hefur hækkað um 1,90%, FTSE 100 um 1,2% og vísitölurnar á norðurlöndunum hafa hækkað um 1-2,7%. Brent hráolía sem er til afhendingar í september hefur hækkað um 3,54% nú í morgun af því er fram kemur í greiningarefni IFS.