Líkur eru taldar á því að kýpverska þingið muni fella löggjöf um alþjóðlega björgunarpakkann í atkvæðagreiðslu í kvöld, að því er segir í frétt New York Times, sem hefur þetta eftir forseta Kýpur, Nicos Anastasiades. Andstaða þingmanna við björgunarpakkann er ennþá mjög mikil þrátt fyrir breytingu á honum, sem myndi veita smærri innstæðum undanþágu frá ætluðum sköttum á innstæður í kýpverskum bönkum.

Fari svo að þingið felli pakkann mun Anastasiades þurfa að hefja viðræður að nýju við Evrópusambandið um það hvort og þá hvernig ESB muni styðja við Kýpur. Pakkinn sem nú er til umfjöllunar er tíu milljarðar evra að stærð, en fjármagna á stóran hluta hans með því að setja skatt á innstæður. Upphaflega átti að leggja 6,75% skatt á allar innstæður undir 100.000 evrum og 9,9% á innstæður yfir þeirri fjárhæð. Breytingartillaga Anastasiades fól í sér að innstæður undir 20.000 evrum yrðu undanþegnar skattinum. Átti skatturinn að skila 5,8 milljörðum evra í björgunarpottinn.

Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segist styðja tilraunir forsetans til að hlífa eigendum minnstu innstæðnanna við áhrifum skattsins, en lagði hart að leiðtogum Kýpur að samþykkja björgunarpakkann að öðru leyti. Segir hún að gagnrýnendur hafi ekki gert sér grein fyrir því að samningurinn muni neyða banka á Kýpur til að gera nauðsynlegar breytingar og þar með styrkja þá.

Bankastjóri seðlabanka Kýpur varaði þingmenn við því að samþykki þeir að leggja skatt á innstæður muni allt að 10% af 65 milljarða evra innstæðum í kýpverskum bönkum flýja land á fimmtudag þegar bann við fjármagnsflutningum rennur út. Þá sagði hann að með því að taka smærri innstæður út fyrir sviga myndi innstæðuskatturinn ekki skila þeim fjárhæðum sem hann á að skila samkvæmt samningnum og þar með gætu lánadrottnar hafnað samningnum einhliða.