*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 16. maí 2018 08:29

Líklegt að þjónustugjöld lækki

Um 41% á aldrinum 18-49 ára segjast líkleg til að nota aðra en banka til að sjá um greiðslur og millifærslur.

Ritstjórn
Friðrik Þór Snorrason er forstjóri Reiknistofu bankanna
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Það er líklegt að hefðbundin þjónustugjöld lækki verulega á næstu fimm árum vegna aukinnar samkeppni við opnun bankakerfisins. Hins vegar felast fjölmörg tækifæri í þessum breytingum fyrir banka, sem geta skapað nýjar tekjur til að vega upp á móti þessum breytingum.“

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Friðriks Þórs Snorrasonar, forstjóra Reiknistofu bankanna (RB) á vorráðstefnu RB sem haldin var í Hörpu í gær.

Þar voru ræddar fyrirhugaðar breytingar á fjármálamarkaði vegna innleiðingar nýrra greiðsluþjónustulaga á Evrópska efnahagssvæðinu, EES (PSD2). Á ráðstefnunni héldu erindi erlendir sérfræðingar á sviði fjártækni og þróunar fjármálakerfisins.

Þjónustan veitt af fleirum

Búist er við að áhrif lagabreytinganna verði víðtæk og hafi mikil áhrif á nær alla viðskiptabankastarfsemi, ekki bara greiðslumiðlun. Talið er að framþróun nýrra tæknilausna verði hröð og að samkeppnin aukist með þátttöku nýrra aðila á fjármálamarkaðinum.

Líklegt er að við þessar breytingar mun þjónustuveitendum fjölga og að fjármálaþjónusta verði enn frekar samofin við aðra þætti efnahagslífsins og þjónusta til neytanda verða enn betri segir í fréttatilkynningu reiknistofunnar.

Á ráðstefnunni komu fram Faith Reynolds fjármálasérfræðingur frá „Open Banking Entity“ en hún ræddi bresku leiðina, en stjórnvöld þar í landi settu OBE á laggir til að innleiða nýju greiðsluþjónustulögin.

Jan Sirich fyrrum framkvæmdastjóri Open Banking hjá Nordea bank, Rohit Talware, framtíðarfræðingur og ráðgjafi, og Brian Bushnell, yfirmaður ráðgjafar hjá Sopra, og Andra Sonea fjármálasérfræðingur hjá 11FS.

Fagnaði þegar góðir hlutir kæmu í gegnum EES

Í kjölfar erinda framsögumanna hófust pallborðsumræður um framtíð íslenska fjármálamarkaðarins, þar sem þátt tóku efnahags- og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, Lilja Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar ehf. og Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri hjá WOWair og fyrrum forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka, stýrði umræðum og fundi. Bjarni Benediktsson sagði að ríkisstjórnin væri klár í innleiðingu á nýjum greiðsluþjónustulögum. Hann sagðist fagna því þegar góðir hlutir koma frá evrópska efnahagssvæðinu sem eykur samkeppni neytendum til góða.

Lilja Einarsdóttir sagði að tekjustofnar bankanna séu fjölbreyttir og að áhættan liggi í því að gera ekki neitt á þessum tíma breytinga. Hún sagði jafnframt að  þessar breytingar mynda hvata fyrir frjóa hugsun inni í bankana sem væri jákvætt og sagði að það væri tími kominn til að breyta bankaumhverfinu.

Stefán Sigurðsson sagðist sjá mikla hliðstæðu við opnun bankakerfisins með opnun fjarskiptageirans á sínum tíma. Hann sagði að það væri mikilvægt að horfa stöðugt fram á við og sjá tækifærin til að breikka starfsemina.

Friðrik Þór Snorrason sagði í erindi sínu frá helstu niðurstöðum nýrrar rannsóknar MMR þar sem íslenskir neytendur voru spurðir út í þær breytingar sem framundan eru á fjármálaþjónustu. Þar kemur fram að 41% Íslendinga á aldrinum 18-49 ára eru líkleg til að nýta þjónustu annarra en banka til að sjá um greiðslur eða millifærslur.

Ennfremur kemur fram að Íslendingar treysta best hefðbundnum bönkum að annast millifærslur á peningum fyrir þeirra hönd, 82% aðspurðra segja að bankar séu þeirra fyrsti eða annar valkostur en 64% telja fjártæknifyrirtæki sinn fyrsta eða annan valkost.

Í erindi Faith Reynolds kom fram að opin bankastarfsemi bjóði upp á mikla möguleika við sköpun neytendamiðari nýjunga í fjármálaþjónustu „þar sem neytendum sé hjálpað að stýra útgjöldum og sparnaði frekar en að bara að eyða peningum.“

Hún sagði Ísland í frábærri aðstöðu til að nýta sterka innviði fjármálakerfisins við opnun bankakerfisins. „Áskorunin felst í áreiðanleika nýrra þátttakenda á fjármálamarkaði, hvernig þeir leita samþykkis og nota gögn neytenda til hagsbóta fyrir fyrirtæki og neytendur,“ sagði Reynolds meðal annars.

Rohit Talwar sagði hagkerfi heimsins í umbreytingarferli þar sem félagslegar þarfir muni þróast hratt á næstu 5 til 10 árum. „Tækni sem raskar hefðbundnum kerfum, líkt og gervigreind og Blockchain, gerir róttækum nýjum hugmyndum, flóknum vörum og þjónustu eins og dulrituðum myntum, kleift að verða að veruleika.“

Hann sagði jafnframt að breytingarnar muni leiða til þess að neytendur og fyrirtæki kalli eftir skýrum, hagnýtum leiðbeiningum og áreiðanlegum upplýsingum.

Talwar sagði skýr tækifæri felast í þessum umbreytingartímum fyrir hefðbundna banka til að endurnýja hlutverk sín sem viðskiptavænar fjármálamiðstöðvar í hjarta efnahagslífsins og samfélagsins.

Um Reiknistofu Bankanna

RB er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur fjármálalausnir, þar á meðal öll megingreiðslukerfi landsins. Helstu viðskiptavinir RB eru fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög.

Framtíðarsýn RB er að auka gæði og hagkvæmni fjármálaþjónustu á Íslandi með þróun framsækinna og öruggra lausna og þjónustu sem eru bæði vel samþættar og samnýttar af markaðinum. Hjá RB starfa um 170 manns.