Stjórnarmaður í Búsæld býst við því að á hlutahafafundi verði tilboði Kjarnafæðis í Norðlenska hafnað. Engin knýjandi þörf sé á sameiningu. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV . Bændur á Norður- og Austurlandi ákveða á fundi sem hefst klukkan eitt í dag hvort þeir taka tilboðinu.

Kjarnafæði bauð 750 milljónir í allt hlutafé kjötvinnslufyrirtækisins Norðlenska. Norðlenska er nú í eigu Búsældar sem eignaðist allt hlutféð árið 2007, en að baki því standa rúmlega 500 bændur. Hluti af innleggi Búsældar hefur farið í að greiða niður skuld vegna kaupanna. Það hefur gengið vel og verður skuldin að fullu greidd árið 2017.

RÚV greinir frá því að Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli á Jökuldal og stjórnarmaður í Búsæld, býst við að kauptilboði Kjarnafæðis verði hafnað á fundinum í dag. Tilboðið hafi komið á óvart því hvorki Búsæld né Norðlenska eigi í vandræðum í augnablikinu, vissulega séu þó blikur á lofti. Offramboð hefur verið á kjöti í Evrópu og launahækkanir hafi lent á kjötvinnslum.