Minni afgangur af vöruskiptum í júní skýrist af auknum innflutningi á meðan verðmæti útflutnings hefur nánast staðið í stað. Aukinn innflutningur skýrist einkum af innflutningi á flutningatækjum og eldsneyti.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag, að afgangur af vöruskiptum hafi dregist saman um þriðjung á fyrri hluta árs miðað við sama tíma í fyrra að teknu tilliti til gengisbreytinga. Bent er á að almenn vöruskipti, þ.e. vöruskipti án skipa og flugvéla, hafi þó þróast með nokkuð hagstæðari hætti.

Greiningardeildin telur vöruskipti verða nokkuð hagstæðari á seinni hluta ársins

„Útflutningur sjávarafurða verður líklega talsvert meiri en á sama tíma í fyrra en verðmæti álútflutnings gæti raunar orðið töluvert minna vegna verðlækkunar á áli á heimsmarkaði. Þá mun innflutningur á fjárfestingar- og neysluvörum væntanlega áfram aukast á milli ára. Á móti kemur verðlækkun á innfluttum hrávörum og eldsneyti, auk þess sem við teljum að innflutningur flutningatækja verði minni á seinni hluta árs. Vöruskiptaafgangur var rúmlega 97 ma.kr. í fyrra, en líklega verður hann nokkru minni í ár, eða um 80 - 90 milljarðar króna,“ að því er segir í Morgunkorninu.