*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 21. febrúar 2021 14:01

Líkti framgöngunni við hústöku

Það kom til snarpra orðaskipta í aðalmeðferð í deilu Fosshótels Reykjavík gegn leigusala sínum.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Hvað ber rekstraraðila hótels að gera þegar ekki tekst að semja um breytingar á leigusamningi, lítið er um erlenda ferðamenn og innflæði tekna er svo til ekki neitt? Það er meðal þess sem deilt var um í Héraðsdómi Reykjaness síðastliðinn þriðjudag þegar aðalmeðferð fór fram í þrætu Fosshótel Reykjavík ehf. og Íþöku fasteigna ehf.

Mest púður í málflutningnum í að velta því upp hvort aðstæðurnar sem hafa verið uppi teljist force majeure eður ei. Lögmaður Fosshótela, Eiríkur S. Svavarsson, benti á að félagið hefði enga stjórn haft á sóttvarnaaðgerðum innan lands eða utan og hvaðþá ferðalagi veirunnar. Aðstæðurnar hefðu þýtt að félagið hefði verið svipt möguleikanum til að afla tekna og með því hafi félagið verið svipt rekstrargrundvelli sínum. Þá kvæði samningur aðila á um að aðstæðurnar teldist ekki vanefnd.

„Fyrsta spurningin sem blasir við er að hver er þessi óyfirstíganlega utanaðkomandi hindrun og af hverju gerir hún [Fosshótel] ókleift að greiða peninga? Það er meginregla að samninga skuli efna og það hefur [Íþaka] gert. Leigusamningur er í gildi, hótelið er til staðar, það hefur ekki brunnið eða hrunið og engir gallar á því,“ sagði Magnús Pálmi Skúlason, lögmaður Íþöku.

„Það er engin hindrun til staðar sem gerir [Fosshótel] ókleift að standa við samninginn. Félagið á nóg fé til að greiða húsaleigu en kýs að gera það ekki. Fjárskortur er ekki force majeure og ef slíkar aðstæður væru uppi þá leysa þær hótelið ekki undan greiðsluskyldu,“ sagði Magnús og bætti við að í raun vildi það bara láta víkja sínum hluta samningsins en samt fá að halda hinu leigða í umráðum sínum. Íþaka greiddi af því öll gjöld og stæði skil á sköttum en fengi ekki leigutekjur. Útgáfa af orðinu hústaka var nefnd í þessu samhengi.

Eiríkur hafði í málflutningsræðu sinni bent á að sanngirnissjónarmið leiddu til þeirrar niðurstöðu að Fosshótel ætti rétt á slaka. Systurfélag Íþöku hefði veitt Center hotels 80% afslátt og KEA og Hótel Katla hefðu fengið 90% afslátt yfir tveggja ára tímabil, þó þannig að leigan myndi hækka um hluta af EBIDTA ef geirinn tæki við sér. Umbjóðanda sínum hefði aðeins staðið til boða að fresta greiðslum nú og bæta þeim við síðar.

Vitnið var í salnum

Þegar Kolbrún Jónsdóttir fjármálastjóri gaf vitnaskýrslu sína mótmælti lögmaður Íþöku því enda hefði hún setið í salnum og hlýtt á skýrslu Davíðs Torfa. Slíkt er í besta falli illa liðið samkvæmt réttarfarslögum enda hætta talin á að framburður síðari vitna geti mengast af framburði þeirra sem fyrri eru. Í málflutningsræðu sinni sagði lögmaður Íþöku síðan að gagnaðili sinn hefði í raun greitt alla aðra reikninga nema húsaleiguna. Af því tilefni kallaði Kolbrún, sem enn sat ásamt framkvæmdastjóra í salnum, „það er ekki rétt!“ Það háreysti gaf dómurum málsins tilefni til að vara hana við því að henni kynni að vera vísað úr salnum ef slíkt gerðist á ný. Til snarpra orðaskipta hafði einnig komið í dómhléi þar sem Pétur, eigandi Íþöku, hafði hátt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Fosshótel Íslandshótel Covid