Bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands gefa til kynna að landsframleiðslan hafi vaxið um 6,4% á 2. ársfjórðungi 2004 samanborið við sama tímabil í fyrra. Þetta er mesti hagvöxtur sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá því á fyrsta fjórðungi ársins 2001.

"Hagvöxturinn einkennist áfram af miklum vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Einkaneyslan jókst um 6,5% sem er ámóta vöxtur og síðustu fimm fjórðunga þar á undan. Samneysla óx um 2,2% sem er þó nokkuð minni vöxtur en að meðaltali síðustu ár. Það er athyglisvert að vöxtur útflutnings nam 7,4% á tímabilinu. Útflutningur jókst nánast ekkert á síðasta ári þrátt fyrir 4,3% hagvöxt, því er jákvætt að sjá þennan vöxt nú, ekki síst í ljósi þess að ytri skilyrði hafa verið erfið að sumu leyti. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa í huga að á sama tíma í fyrra dróst útflutningur saman um 5,1%. Vöxtur innflutnings er þó enn sem fyrr meiri en vöxtur útflutnings, eða 12,9%, og vega fjárfestingarvörur þungt um þessar mundir," segir Vegvísir Landsbankans

Þar er ennfremur bent á að miðað við vöxt á fyrrihluta ársins virðist stefna í að hagvöxtur fyrir árið í heild verði meiri en áður var talið. Ekki er að sjá að dregið hafi úr krafti uppsveiflunnar á seinni hluta ársins og nú þegar langtímavextir hafa lækkað umtalsvert má gera ráð fyrir áframhaldandi upptakti í hagkerfinu. Við teljum því líkur á að hagvöxturinn ársins verði a.m.k. 5%, sem er svipaður vöxtur og á árunum 1996 - 2000.