Greiningardeild Landsbanka telur virðisaukningu fyrirtækja á markaði nema um 1-1,5% vegna lækkunar tekjuskatts úr 18% í 15% og kveðst Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður deildarinnar, telja að lækkunin muni auka sjálfstraust fjárfesta og auki líkur á að íslensk fyrirtæki með rekstur erlendis flytji stærri hluta af hagnaði heim.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts veldur að meðaltali virðisaukningu skráðra fyrirtækja hérlendis um 1-1,5%, að mati greiningardeildar Landsbanka Íslands, eða sem nemur um það bil 30 milljörðum króna á markaðinn í heild. Ef þau félög eru undanskilin sem hafa takmarkaðan ávinning af skattalækkun er meðaltal virðisaukningar heldur hærra, eða um 1,5-2% Hafa ber þó í huga að hluti af þeirri virðisaukningu er væntanlega kominn fram nú þegar í samræmi við væntingar fjárfesta um skattalækkanir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .