Igor Sechin, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, sagði á fundi olíuríkja OPEC að Rússar kunni að draga úr útflutningi á olíu um 16 milljónir tonna á árinu 2009. Það samsvarar 320.000 tunnum á dag.   Í frétt á vef viðskiptafréttastofunnar PRIME-TASS í dag segir að Rússar, sem stærsti olíuframleiðandi utan OPEC samtakanna, vilji reyna að styðja OPEC við að tryggja stöðugt olíuverð.   Á fundinum með OPEC var samþykkt að koma á fót vinnuhópi með Rússum til að þróa sameiginlega nálgun við þau vandamál sem steðja að olíuiðnaðinum. Sechin segir að Rússar hafi samt ekki uppi áform um að ganga í OPEC samtökin, né samræma niðurskurð á sinni framleiðslu við ákvarðanir OPEC. Hins vegar sagði Sechin að lágt olíuverð kunni að neyða rússnesk olíufyrirtæki til að draga úr fjárfestingum í olíuframleiðslu. Það gæti leitt til hraðari samdráttar í framleiðslu í framtíðinni.   OPEC ríkin hafa þegar samþykkt að draga úr olíuframleiðslu sinni um 2 milljónir tunna á dag.