Á grundvelli gagna sem Samkeppniseftirlitið lagði hald á í húsleit hjá Símanum og tengdum félögum hafa stjórnendur eftirlitsins komist að þeirri bráðabirganiðurstöðu  að sennilegt sé að Síminn hafi gripið til umfangsmikilla ólögmætra aðgerða í því skyni að ná mikilvægum viðskiptavinum frá Nova með sértækum verðlækkunum og óeðlilegri notkun á trúnaðarupplýsingum um símnotkun viðskiptavina Nova.

Útbjó lista yfir viðskiptavini Nova

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins útbjó Síminn lista sem hefur að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavina Nova. Geyma umræddir listar ekki aðeins upplýsingar um símanúmer og nöfn viðkomandi viðskiptavina Nova heldur jafnframt kennitölur, heimilsföng og í mörgum tilvikum starfsheiti þeirra. Auk þess koma fram upplýsingar um fjölda símtala hvers og eins, lengd þeirra í mínútum eða sekúndum og lengd meðalstímtals.

„Á grundvelli þessara upplýsinga gat Síminn beitt sér gagnvart mikilvægum viðskiptavinum Nova. Er talið í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða að sennilegt sé að um sé að ræða misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á 11. gr. samkeppnislaga," segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Síminn hættur að nota umræddar upplýsingar

Í tilkynningunni segir jafnframt:

„Síminn hefur lýst því yfir gagnvart Samkeppniseftirlitinu að aðgerðir gegn Nova séu hættar og að fyrirtækið muni ekki nota umræddar upplýsingar um símnotkun viðskiptavina keppinauta sinna ef eftirlitið telji að um lögbrot geti verið að ræða. Er í bráðabirgðaákvörðuninni lagt til grundvallar að Síminn muni standa við þessar yfirlýsingar og ekki grípa til umræddra aðgerða meðan á málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins stendur. Samkeppniseftirlitið beinir því hins vegar til viðskiptavina keppinauta Símans að tilkynna eftirlitinu hið fyrsta ef þeir fá tilboð frá Símanum sem virðast byggja á upplýsingum um farsímanotkun þeirra."