Það eru líkur á að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's lækki lánshæfismatseinkunn ítalska ríkisins, segir greiningardeild Landsbankans og vitnar í heimasíðu Bloomberg.

Ekki er talið að ríkisstjórn Ítalíu geti neinu breytt um niðurstöðurnar, þrátt fyrir loforð frambjóðenda ríkisstjórnarkosninganna sem fara fram 9.-10. apríl næstkomandi, um umbætur á stjórn ríkisfjármála.

Ef lánshæfismatið verður lækkað er það í annað skiptið í röð, en í júlí 2004 lækkaði lánshæfismatseinkunnin í AA-.

Haft er eftir hagfræðingnum Nouriel Roubini, sem tjáði sig um málefni Ítalíu í umræðum sem fóru fram í febrúar síðastliðnum, að hann teldi mikilla umbóta þörf eigi að birta til á ný í efnahagslífinu.

Mikill halli mældist á ríkissjóði Ítalíu árið 2005, 4,3% af vergri landsframleiðslu. Miklar skuldir, lítill hagvöxtur og slæm staða eftirlaunasjóða hefur verið að valda ríkisstjórninni vandræðum og horfur í ítölsku efnahagslífi þykja fremur slæmar.

Hagvöxtur árið 2005 mældist 0% sem þykir slakt í samanburði við hagvöxt sambærilegra landa eins og Þýskalands þar sem hagvöxtur var 1,1% og Frakklands það sem hagvöxtur var 1,6%.