Þrátt fyrir að flestir hafi verið fullvissir fyrir nokkru að Seðlabanki Evrópu myndi hækka vexti á morgun hefur skjálftavirknin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán (e. sub-prime mortgage) dregið verulega úr líkunum á því. Samkvæmt könnun Dow Jones fréttastofunnar spá 39 af 51 banka að vöxtum verði haldið óbreyttum. Hinsvegar spá 33 bankar að vextirnir verði komnir í 4,25% fyrir árslok. Það bendir til þess að hald margra sé að lausafjárþurrðin muni ekki hafa varanleg áhrif á hagkerfi myntbandalagsins.

Þó svo að hagvöxtur hafi dregist saman um meira en helming á öðrum ársfjórðungi á evrusvæðinu virðast stoðirnar vera styrkar og flestir sérfræðingar segja samdráttinn vera tímabundinn og að vöxturinn verði hraðari á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Hagvöxtur dróst saman vegna minni fjárfestingar en samt sem áður benda væntingavísitölur til þess að bjartsýni á framtíðarhorfur ríki meðal stjórnenda fyrirtækja auk þess sem að hagvísar gefa til kynna þenslu á evrusvæðinu. Mæling fyrir ágústmánuð sýndi fram á 1,8% verðbólgu sem er rétt undir verðbólgumarkmiðum.

Óvissuþátturinn felst í áhrifum hrunsins á undirmálslánamarkaðnum og hversu viðvarandi lausafjárþurrðin verður á fjármálamörkuðum. Búast má við því að ókyrrðin á mörkuðum ráði mestu um stefnu bankans á næstu misserum. Óbreytt ástand setur stjórnendur evrópska seðlabankans í töluverðan vanda og það yrði til þess að draga úr líkunum á frekari vaxtahækkunum á komandi mánuðum.

Tímaspursmál hvenær vextir verða hækkaðir
Hinsvegar eru merki um að öldurnar sé að lægja. Í gær lýsti Josef Ackerman, aðalframkvæmdastjóri Deutsche Bank, því yfir að teikn væru á lofti um að tímabil lausafjárþurrðarinnar væri að renna sitt skeið á enda. Hann sagði að bankinn, sem er sá stærsti í Þýskalandi, ætti í engum vandræðum að afla fjár á mörkuðum. Ackerman sagði jafnframt að Deutsche Bank hefði handsalað lán að verðmæti 29 milljónir evra auk brúarlána að verðmæti 750 milljónir evra til einkafjárfestingasjóða. Lausafjárþurrðin hefur bitnað mikið á starfsemi slíkra sjóða og benda því ummæli Ackerman til þess að stöðugleiki sé að komast á markaði.

Rætist það er líklegt að vaxtahækkanir haldi áfram á evrusvæðinu. Ummæli Axel Weber, bankastjóra þýska seðlabankans og áhrifamanns innan þess evrópska, á efnahagsráðstefnu í Bandaríkjunum um helgina, um að viðbrögð markaðarins vegna ástandsins á bandaríska fasteignamarkaðnum væru í engu samræmi við vandann og engar vísbendingar væru um almennan skort á greiðslugetu á fjármálamörkuðum, benda til þess að mat seðlabankans sé að núverandi skjálftavirkni á mörkuðum sé tímabundin. Þrátt fyrir að fastlega sé gert ráð fyrir að vextir verði óbreyttir á evrusvæðinu eftir vaxtarákvörðunarfundinn á morgun er líklegt að það sé aðeins tímaspursmál hvenær þeir hækka enn frekar.