Margt bendir til þess að þátttaka erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði muni aukast á næstu misserum, segir greiningardeild Glitnis.

?Krafan um þátttöku erlendra aðila sem fjárfesta á innlenda hlutabréfamarkaðinum hefur dregið enn fram í dagsljósið þau höft sem krónan er fyrir vöxt og viðgang þessa markaðar og þeirra félaga sem á honum starfa.

Nýleg breyting Straums-Burðaráss á eigin fé sínu úr krónum yfir í evrur og líklegt næsta skref að skrá hlutaféð í evrum er vísbending um að krónan henti illa þeim félögum sem vilja laða að sér erlenda fjárfesta,? segir greiningardeildin.

Hún spáir því að fleiri félög muni gera slíkt hið sama á árinu, og hefur Kaupþing þar helst verið nefnt. ?Færist viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni úr íslenskum krónum í stærri gjaldmiðla, til að mynda evrur eða bandaríkjadali, þá er viðbúið að áhugi og þátttaka erlendra fjárfesta aukist og þar með dýpt og verðmyndun á markaði,? segir greiningardeildin.

Greiningardeildin bendir einnig á að áhugi erlendra fjárfesta er sýnilegur. ?Nú síðast með hlutafjárútboðum Kaupþings og Icelandair þar sem erlendir fjárfestar tóku þátt. Auk þess eiga erlendir fjárfestar hluti í ýmsum íslenskum félögum, t.d. Marel, Össur og Alfesca.

Með innlimun Kauphallarinnar í OMX á Norðurlöndum mun sýnileiki fyrirtækjanna gagnvart erlendum fjárfestum aukast, afleiðumarkaður fæðast sem gefur m.a. tækifæri á skortstöðum og aukinni dýpt markaðarins. Aðkoma erlendra aðila að viðskiptum með hlutabréf íslensku fyrirtækjanna mun því líklega aukast samfara þessari breytingu,? segir greiningardeildin.