Talsverðar líkur eru á að verð á bensín og olíu muni hækka hérlendis á næstunni ef miðað er við hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði. Gengi krónunnar getur þó ráðið úrslitum um verðið á Íslandi. Verðið er nú skráð á milli 58,19 og 58,64 dollara tunnan hjá Brent í London og NYMEX í Bandaríkjunum. Hefur olíuverðið verið á stöðugri uppleið frá því 30. apríl.

Heimsmarkaðsverðið á olíu er nú svipað og það var í lok nóvember 2008. Þá var gengi krónunnar jafnframt afar lágt og miðgengi dollars 141,85 krónur. Miðgengi dollars var aftur á móti skráð hjá Seðlabanka Íslands á 125,38 krónur á föstudag, en var 127,25 krónur í lok apríl. Sterkari króna ætti því að vega talsvert á móti síðustu verðhækkunum á olíu erlendis svo þróun á gengi krónunnar getur haft afrifarík áhrif á eldsneytisverðið til neytenda á Íslandi á næstu vikum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda FÍB hefur þó ítrekað bent á að styrking krónunnar hafi ekki skilað sér til neytenda á Íslandi í formi samsvarandi lækkunar eldsneytisverðs.

Þegar krónan er jafn óstöðug og raun ber vitni er því afar erfitt fyrir leikmenn að meta hvert eðlilegt raunverð eldsneytis á að vera á Íslandi frá degi til dags. Því er mikilvægt að neytendur beri bæði saman þróun olíuverðs og gengi krónunnar á næstu vikum til að meta hvort raunveruleg þörf verði á verðhækkunum.

Hjá Skeljungi er verð á 95 oktana bensíni nú á flestum stöðvum 157,4 krónur og 161,8 krónur á dísilolíunni  í sjálfsafgreiðslu. Meðalverð hjá N1 á bensíni og dísilolíu í sjálfsafgreiðslu er það sama og hjá Skeljungi og sömu sögu er að segja af Olís. Aftur á móti er bæði um að ræða hærri og lægri verð hjá einstökum stöðvum innan þessara félaga.

Sem, dæmi er hægt að fá bensínið hjá Olís í Mjóddinni í Reykjavík og í hamraborg í Kópavogi á 152,7 krónur á svokölluðu staðgreiðslukortsverði og 155,7 krónur lítrinn af dísilolíunni. Hjá Atlantsolíu er skráð verða á 85 oktana bensíni hins vegar 155,90 krónur lítrinn og 160,30 krónur á lítranum af dísilolíu og tveggja krónu afsláttur er svo gefinn ef notaður er dælulykill.