Framleiðsla á Evrusvæðinu jókst í septembermánuði 15. mánuðinn í röð, segir greiningardeild Glitnis.

?Aukningin var örlítið meiri en búist var við. Þessar tölur þykja auka á líkurnar að evrópski Seðlabankinn hækki vexti þegar stjórn hans kemur saman á fimmtudaginn. Bankinn hefur nú þegar hækkað vexti fjórum sinnum síðustu 10 mánuði til að sporna við verðbólgu á svæðinu.

Sjá má á framvirkum samningum að fjárfestar búast við því að stýrivextir á Evrusvæðinu verði 3,5% í árslok. Spár hagfræðinga eru samhljóma um að Seðlabankinn hækki vexti í vikunni og svo aftur í desember. Eftir það eru skoðanir hins vegar skiptar - sumir spá áframhaldandi hækkunum upp í 4% fyrir lok næsta árs en aðrir lækkunum niður í 3%," segir greiningardeildin.

Verðbólgan

"Verðbólgan á Evrusvæðinu mælist nú 1,8%. Seðlabankinn spáir 2,4% verðbólgu á þessu ári og því næsta. Í þeirri spá gerir bankinn ráð fyrir að olíuverð verði um 70 dollarar tunnan en meðalverð á olíu hefur verið um 64 dollarar tunnan frá því að spáin var birt.

Lækkun á olíuverði veldur því að neytendur hafa meira á milli handanna og því myndast svigrúm fyrir fyrirtæki að hækka verð. Margt bendir því til þess að olíulækkunin hvetji til vaxtahækkunar þrátt fyrir að hún lækki verðbólguna til skamms tíma.

Stjórn Englandsbanka kemur einnig saman í vikunni. Spár benda til að vextir þar verði áfram óbreyttir 4,75%," segir greiningardeildin.