Samhljómur er meðal flestra greiningaraðila um að íslenska krónan verði áfram sterk og raungengið hátt næstu árin. Útlit er fyrir áframhaldandi hagvöxt, hagstæð ytri skilyrði og gott jafnvægi í fjármagnsstreymi til og frá landinu.

Seðlabanki Íslands spáir hvað mestri styrkingu krónunnar og hækkun raungengis næstu tvö árin meðal þeirra greiningaraðila sem spá opinberlega fyrir um gengisþróun krónunnar. Í nýjasta hefti Peningamála spáir Seðlabankinn að nafngengi krónunnar muni styrkjast um 3,7% næstu tvö árin. Þá spáir bankinn að raungengi krónunnar, miðað við hlutfallslegt neysluverð, muni feta nýjar slóðir og hækka um 6,2%, en raungengið hækkaði um tæp 12% í fyrra og 13% árið þar á undan.

Raungengi lýsir því hversu mikið vörur og þjónusta - eða vinnuafl - kosta í tilteknu landi í samanburði við önnur lönd. Seðlabankinn telur núverandi raungengi vera nálægt því sem hagkerfið ræður við til lengdar.

Hagstofa Íslands spáði í þjóðhagsspá sinni í febrúar að raungengið mun hækka um 2,8% til 2020, en hún birtir uppfærða þjóðhagsspá á morgun. Í nýrri hagspá Greiningar Íslandsbanka er spáð 2,7% hækkun á raungenginu. Báðir aðilar spá því að nafngengi krónunnar verði áfram sterkt. Hagfræðideild Landsbankans birtir ekki spá um raungengi, en taldi í hagspá sinni í nóvember að krónan myndi áfram vera sterk gagnvart evrunni næstu tvö árin.

Greiningardeild Arion banka telur á hinn bóginn að nafngengi krónunnar muni veikjast um 4,5% næstu tvö árin og raungengið lækka lítillega.

Markaðsaðilar búast við því að gengi krónunnar verði lítillega lægra eftir ár, samkvæmt könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila sem framkvæmd var í byrjun mánaðarins. Í síðustu þremur könnunum gerðu þeir ráð fyrir nánast óbreyttu gengi að ári liðnu.

Því ber að halda til haga að hvorki markaðsaðilum né hagfræðingum hefur tekist vel að spá fyrir um gengi gjaldmiðla í gegnum söguna. Er það ekki að furða, þar sem gengi gjaldmiðla ræðst af ótal mörgum þáttum. Fjármagnsjöfnuður er kvikur og hverfull, og fjármagnsflutningar illfyrirsjáanlegir. Gengi gjaldmiðla - sérstaklega á smæsta myntsvæði heims - getur því breyst mikið eins og hendi sé veifað.

Ytri skilyrði áfram hagstæð

Ýmsir kraftar hafa stuðlað að því að krónan hafi styrkst verulega undanfarin ár, en gengi krónunnar hefur endurspeglað aukin umsvif í hagkerfinu. Bati á viðskiptakjörum og hraður vöxtur útflutnings – sérstaklega ferðaþjónustunnar – hefur stuðlað að viðskiptaafgangi og bættri ytri stöðu þjóðarbúsins. Raunvaxtamunur við útlönd hefur verið talsverður. Þá hefur traust alþjóðlegra aðila á íslensku hagkerfi aukist jafnt og þétt, meðal annars vegna niðurgreiðslu skulda, stórs gjaldeyrisforða Seðlabankans og jákvæðrar hreinnar erlendrar stöðu þjóðarbúsins.

„Við teljum að flestir þessir þættir muni halda áfram að styðja við sterka krónu og hátt raungengi næstu árin,“ segir Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka.

„Viðskiptakjör verða líklegast hagstæð með hækkandi verði á áli og sjávarafurðum. Það er útlit fyrir viðskiptaafgang næstu tvö árin, þó hann fari minnkandi vegna hægari fjölgun ferðamanna og aukinnar einkaneyslu. Jákvæð hrein erlend staða styður við hátt raungengi til frambúðar auk þess sem Seðlabankinn er nokkurn veginn hættur að safna í gjaldeyrisforðann. Svo eru góðar líkur á að innflæði fjármagns til landsins muni vega að miklu leyti upp á móti útflæði vegna erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta. Raunvextir hér á landi eru talsvert hærri en almennt gengur og gerist í iðnríkjum og íslenska hagkerfið í heilbrigðari stöðu en mörg önnur vestræn hagkerfi,“ segir Elvar Orri. Styrkist krónan enn frekar muni það éta upp viðskiptaafganginn, auka fjármagnsútstreymi, draga úr hagvexti og verðbólgu og hækka raunvaxtastigið.

Hagfræðideild Landsbankans benti jafnfram á í hagspá sinni í nóvember síðastliðnum að með minnkandi framleiðsluspennu væri fyrirsjáanlegt að Seðlabankinn myndi slaka á innflæðishöftum á skuldabréfamarkaði, sem væri til þess fallið að styrkja krónuna.

Ísland verður ekki mikið dýrara

„Það eru fá rök sem hníga að því að krónan ætti að vera sterk eins og hún er núna, hvað þá að hún eigi eftir að styrkjast enn frekar,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Deildin spáir því að krónan muni veikjast næstu árin, þrátt fyrir áframhaldandi hagvöxt, fjölgun ferðamanna og viðskiptaafgang. Ástæðan er sögð skýr: Ísland er allt of dýrt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .