Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í sexfréttum Ríkisútvarpsins að margt benti til þess að ef Icesave samningurinn hefði verið samþykktur myndu Íslendingar horfa frekar fram á hækkanir á einkunnum alþjóðlegra matsfyrirtækja.

Matsfyrirtækið Fitch Ratings tilkynnti í dag að það hefði breytt horfum á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2006 sem matsfyrirtækið bætir horfur eða lánshæfiseinkunnir Íslands.

Í tilkynningu frá Fitch segir að líkur á að Icesave-deilan hafi áhrif á aðgengi Íslands að lánalínum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi minnkað. Staðfesting Fitch í dag felur í sér endurmat á áhrifum þess að Icesave-samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl sl.

Már sagði við Rúv að þessi niðurstaða væri ánægjuleg. Ákveðin viðspyrna hefði náðst í efnahagslífinu. Aðstæður væru að batna fyrir íslenska ríkið að brjóta sér leið á erlenda lánsfjármarkaði. Niðurstaða Fitch hjálpaði í þeim efnum.